Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 194 . mál.


Ed.

267. Frumvarp til laga



um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar.

(Eftir 2. umr. í Ed., 8. des.)



1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem loðdýrabændur taka í stað lausaskulda sem myndast hafa vegna loðdýrabúskapar þeirra á árunum 1986–1989, samtals allt að 300 m.kr.
    Lánin skulu veitt til fimmtán ára, verðtryggð með lánskjaravísitölu og 5% vöxtum. Endurgreiðslutími lánanna skal vera tólf ár.
    Sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs skal því aðeins veitt að með henni reynist unnt að koma rekstri viðkomandi bús í viðunandi horf eða forsendur séu fyrir hendi fyrir lántakanda að greiða af skuldum sínum með öðrum hætti. Hún má ná til allt að 60% af þeim lausaskuldum hvers bónda sem uppfylla skilyrði 1. mgr., enda breyti viðkomandi lánardrottnar því sem eftir stendur í lán til a.m.k. átta ára gegn þeim tryggingum sem þeir meta gildar.
    Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal hafa á hendi umsjón með framangreindum skuldbreytingum.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um lánsupphæðir til hvers loðdýrabónda, svo og önnur þau skilyrði fyrir lánveitingum er þurfa þykir, svo sem veðskilmála.

2. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði um tryggingar fyrir lánum o.fl. í lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, er Stofnlánadeild heimilt að fella niður verðtryggingu og vexti, og fresta greiðslu afborgana, af lánum til bænda vegna loðdýrabúra á næstu fimm árum. Þá er Stofnlánadeild heimilt, þegar hagsmunum hennar er betur borgið með þeim hætti, að fella niður hluta höfuðstóls annarra veðskulda loðdýrabænda.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Prentað upp.